Fréttir

Mickelson ekki með í Forsetabikarnum í fyrsta skiptið
Phil Mickelson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 9. nóvember 2019 kl. 11:16

Mickelson ekki með í Forsetabikarnum í fyrsta skiptið

Á föstudaginn greindi fyrirliðinn Tiger Woods frá því hvaða tólf kylfingar verða með í bandaríska liðinu í Forsetabikarnum.

Meðal þeirra sem komust ekki í liðið í þetta skiptið voru þeir Jordan Spieth, Kevin Kisner, Rickie Fowler og Phil Mickelson. Í fyrsta skiptið í sögu keppninnar verður Mickelson ekki með en hann er sigursælasti kylfingur keppninnar frá upphafi.

Alls hefur Mickelson fengið 32,5 stig í keppnunum tólf sem er met en hann hefur einnig fengið flest stig í fjórmennings leikjum (14) og flest í betri bolta (13).

Mickelson hefur leikið í öllum 12 keppnunum sem haldnar hafa verið og er sá eini í sögunni en Bandaríkjamenn hafa þar unnið í 10 skipti, gert jafntefli einu sinni og einu sinni hafði Alþjóðaliðið betur.

Forsetabikarinn var fyrst haldinn árið 1994 og var upphaflega haldið á sléttum árafjölda en vegna hryðjuverkanna í New York árið 2001 voru bæði Ryder bikarinn og Forsetabikarinn færðir um eitt ár.

Mickelson vissi það sjálfur fyrir keppnina að hann yrði líklega ekki valinn en hann sagðist meðal annars hafa spilað skelfilega síðustu átta mánuði. Vonandi fyrir Phil verður hann í betra formi eftir tvö ár þegar Forsetabikarinn fer næst fram í Bandaríkjunum.

Sjá einnig:

Woods valdi sjálfan sig
Els valdi tvo nýliða
Yngsta Alþjóðaliðið í sögu Forsetabikarsins

Ég tel mig geta hjálpað liðinu