Prósjoppan mottumars
Prósjoppan mottumars

Fréttir

Thomas missir styrktaraðila
Justin Thomas.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 16. janúar 2021 kl. 12:08

Thomas missir styrktaraðila

Ralph Lauren hefur bundið enda á tæplega 8 ára samstarf við kylfinginn Justin Thomas sem hefur þar með misst einn af sínum stærstu styrktaraðilum.

Ástæðan er sú að Thomas lét ummæli falla eftir að hafa misst stutt pútt á Sentry Tournament of Champions mótinu um síðustu helgi. Eins og sést í þessari frétt mátti heyrast í Thomas segja enska orðið „faggot“ sem er meiðyrði yfir samkynhneigða karlmenn.

Eftir hringinn sagði Thomas að það væri engin afsökun fyrir orðnotkunina og hann þyrfti einfaldlega að gera betur.

Í tilkynningu frá Ralph Lauren kemur eftirfarandi fram: „Við erum niðurdregin vegna orða Thomas sem eru algjörlega í ósamræmi við okkar gildi. Við tókum til greina að hann hafi beðist afsökunar og áttað sig á alvarleika orða sinna en hann er launaður sendiherra vörumerkisins okkar og aðgerðir hans stangast á við þá menningu sem við höldum uppi.

Með ábyrgð í huga gagnvart öllum hagsmunaaðilum okkar höfum við ákveðið að hætta að styrkja Hr. Thomas á þessum tímapunkti.“

Hinn 27 ára gamli Thomas hafði verið samningsbundinn Ralph Lauren frá því að hann gerðist atvinnumaður árið 2013. Síðan þá hefur hann sigrað á 13 mótum á PGA mótaröðinni og er í dag í 3. sæti á heimslista karla í golfi. Hann spilar næst á Abu Dhabi HSBC meistaramótinu á Evrópumótaröðinni.