Fréttir

Íslandsmótið: 5. holan á Hlíðavelli reynst kylfingum erfið
Andri Þór Björnsson sigraði á Heimslistamótinu á Hlíðavelli fyrr í sumar.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 5. ágúst 2020 kl. 16:00

Íslandsmótið: 5. holan á Hlíðavelli reynst kylfingum erfið

Íslandsmótið í höggleik fer fram hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar á Hlíðavelli dagana 6.-9. ágúst. Fyrr í sumar fór fram Ísam mótið á Heimslistamótaröðinni á þessum sama velli og er því áhugavert að skoða hvernig skor keppenda var á vellinum.

Alls spiluðu 39 kylfingar í Heimslistamótinu en þar voru einungis þeir allra bestu á landinu á meðal keppenda. Til að mynda spiluðu þær Guðrún Brá, Valdís Þóra og Ólafía allar með í kvennaflokki og í karlaflokki voru atvinnukylfingarnir Haraldur Franklín, Axel Bóasson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Andri Þór Björnsson með.

Athygli vekur að 5. holan á Hlíðavelli reyndist kylfingum erfiðust í mótinu en meðalskorið á holunni var 5,67 högg eða 0,67 högg yfir pari. Það er frekar óalgengt að par 5 hola reynist jafn góðum keppendahópi svo erfið en alls komu 22 tvöfaldir skollar eða verra skor á holunni. Þó skal hafa í huga að holan spilaðist í mótvindi í mótinu.

Næst erfiðasta holan í Heimslistamótinu var 18. holan sem er par 3 hola. Það verður því spennandi að fylgjast með á lokadegi Íslandsmótsins þegar pressan verður sem mest.

Það kemur eflaust lítið á óvart að 13. holan á Hlíðavelli spilaðist auðveldust á Heimslistamótinu en um er að ræða stutta par 5 holu sem gefur keppendum góðan möguleika að komast inn á í tveimur höggum. Meðalskor keppenda mótsins á þeirri holu var 4,78 högg eða 0,22 högg undir pari. 13. holan bauð keppendum einnig upp á flesta erni eða 7 talsins.

Fimm „erfiðustu“ holur Hlíðavallar:

Hola       Par         Meðalskor

5.             5             5,67 högg
18.           3             3,50 högg
11.           4             4,47 högg
3.             3             3,37 högg
15.           3             3,37 högg

Fimm „auðveldustu“ holur Hlíðavallar:

Hola       Par         Meðalskor

13.           5             4,78 högg
16.           4             3,80 högg
8.             5             4,84 högg
2.             4             3,96 högg
12.           5             5,02 högg

Íslandsmótið í höggleik hefst á morgun, fimmtudag, og lýkur á sunnudaginn. Eftir tvo hringi verður skorið niður í mótinu og heldur þá um helmingur keppenda áfram.

Tengdar fréttir:

Guðmundur Ágúst mun ekki verja titilinn
Skráningu í Íslandsmótið lýkur í kvöld
GM þarf þína aðstoð fyrir Íslandsmótið á þessum fordæmalausu tímum
Sigursælustu kylfingar Íslandsmótsins í höggleik frá upphafi
Böðvar Bragi með lægstu forgjöfina í Íslandsmótinu
Íslandsmótið í höggleik: 20 á biðlista
Nýir hvítir teigar á Hlíðavelli fyrir Íslandsmótið
Valdís Þóra: Virkilega leiðinlegt